Erlent

Notuðu flygil fyrir kókaínsmygl

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Fíkniefnasmyglarar leita ýmissa leiða til að koma eiturlyfjum framhjá tollvörðum. Í Kólumbíu þar sem framleiðsla kókaíns er mest á heimsvísu, munaði aðeins hársbreidd að smyglurum tækist að plata yfirvöld með því að koma á þriðja hundrað kílóum af kókaíni fyrir inni í flygli.

Hefði það ekki verið fyrir vökult auga tollvarðar, er ekki víst að 253 kíló af kókaíni hefðu fundist í flygli sem verið var að flytja til Panama. Tollvörðurinn veitti því eftirtekt að flygillinn var of þungur.

Hljóðfærið var gert upptækt í höfn borgarinnar Cartagena, 600 kílómetra norður af höfuðborginni Bógóta. Fíkniefnalögreglan var dágóða stund að taka hljóðfærið í sundur, en hver fersentimeter innan í því var nýttur.

Kólumbía er það land þar sem mest magn er framleitt af kókaíni í heimi.

Smyglarar reyna að vera skrefi á undan lögreglunni með því að finna upp frumlegar aðferðir til að smygla efninu út úr landi. Um 90 prósent kókaíns sem neytt er í Bandaríkjunum kemur frá Kólumbíu og efnið er flutt í gegnum Panama. Söluverði efnisins er um fimm milljónir bandaríkjadala, eða um þrjú hundruð milljónir íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×