Erlent

Alþjóðakjarnorkumálastofnunin staðfestir lokun kjarnakljúfs Norður-Kóreu

Jónas Haraldsson skrifar
Notaðar plútóníum stangir sjást hér í kælitanki í kjarnorkuverinu í Yongbyon. Myndin er frá árinu 1996.
Notaðar plútóníum stangir sjást hér í kælitanki í kjarnorkuverinu í Yongbyon. Myndin er frá árinu 1996. MYND/AP

Alþjóðakjarnorkumálastofnunin staðfesti í nótt að Norður-Kórea hefði lokað kjarnorkuveri sínu í Yongbyon. Eftirlitsmenn stofnunarinnar sögðu að lokun kjarnorkuversins væri aðeins fyrsta skrefið í afvopnunarferli Norður-Kóreu. Verið sem nú var verið að loka framleiddi plútóníum sem hægt var að nota í kjarnorkusprengjur.

Næsta skref verður að staðfesta að stjórnvöld hafi einnig lokað öðrum verksmiðjum sem komu að því að framleiða íhluti fyrir kjarnorkuverið. Mohamed ElBaradei, framkvæmdastjóri Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar, sagði að það myndi taka eftirlitsmenn hennar um mánuð að koma fyrir innsiglum og eftirlitsbúnaði til þess að tryggja að kjarnakljúfurinn yrði ekki í notkun.

Stjórnvöld í Norður-Kóreu skýrðu frá því á laugardaginn að þau hefðu lokað verinu. Á sama tíma fengu þau fyrstu sendingu af olíu frá Suður-Kóreu en samkvæmt afvopnunarsamkomulaginu sem náðist þann 13. febrúar, fær landið milljón tonn af olíu, loforð um að ekki verði ráðist gegn skotmörkum í landinu og aukinn aðgang að alþjóðamörkuðum. Christopher Hill, aðalsamningamaður Bandaríkjanna, sagði að ef Norður-Kórea myndi losa sig algjörlega við kjarnorkuáætlun sína, væri allt mögulegt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×