Erlent

Pólskar hjúkrunarkonur taka niður tjaldbúðir sínar

Tjaldbúðir hjúkrunarkvennanna sem nú eru horfnar.
Tjaldbúðir hjúkrunarkvennanna sem nú eru horfnar. MYND/AFP

Hundruð pólskra hjúkrunarkvenna hættu í dag mótmælaaðgerðum sínum við skrifstofu pólska forsætisráðherrans. Þær höfðu sett upp tjaldbúðir fyrir utan skrifstofuna og eru nú að taka þær niður. Lögregla var með töluverðan viðbúnað þar sem hjúkrunarkonurnar áttu það til að stöðva umferð á svæðinu.

Mótmælin voru þó friðsamleg. Hjúkrunarkonurnar höfðu verið í tjaldbúðunum í fjórar vikur. Þær segjast þó ekki hættar mótmælunum þrátt fyrir að vera að hverfa á braut - þær segjast ætla að halda áfram og ætla sér að birtast á ólíklegustu stöðum.

Stjórnvöld hafa boðið 15% launahækkun á ári í þrjú ár en ekki prósenti meira þar sem þau segja að það gæti leitt til þess að aðrar stéttir krefjist hærri launa og hleypi þannig af stað efnahagskrísu. Hjúkrunarkonurnar neituðu tilboði ríkisins og vilja að laun þeirra séu nær tvöfölduð.

Starfsfólk í heilbrigðisgeiranum í Póllandi er með um helminginn af meðaltali Evrópusambandsins í laun. Viðbúið er að það verði skortur á starfsfólki í stéttinni ef fólkið lætur laun annars staðar lokka sig í burtu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×