Erlent

16 ára breskar stelpur handteknar í Ghana fyrir tilraun til smygls á kókaíni

NordicPhotos/GettyImages

Tvær 16 ára breskar stelpur eiga von á fangelsisvist í Ghana eftir að hafa verið handteknar á Accra flugvellinum þar í landi með kókaín að verðmæti 37 milljóna króna. Stelpurnar voru handteknar 2. júlí síðastliðinn með sex kíló af kókaíni.

„Þær ætluðu að smygla þessu frá Ghana til Bretlands. Þetta var kókaín. Þær voru með sitthvor 3 kílóin falin í fartölvutöskunum sínum, en voru ekki með tölvur í töskunum," sagði Mark Ewunpomah, talsmaður fíkniefnadeildar Ghana. „Þær verða ákærðar fyrir að hafa fíkniefni í sínum höndum og fyrir að hafa ætlað að smygla þeim úr landi. Lágmarksrefsing fyrir þessa glæpi er tíu ára fangelsisvist."

Handtakan kom í kjölfar herts eftirlit á flugvellinum sem er hluti af samstarfi Ghana og Bretlands til að koma í veg fyrir að flugvöllurinn sé notaður til að smygla fíkniefnum frá Ghana til meginlands Evrópu.

„Að nota svona ungar stelpur sem burðardýr sýnir hversu grimm glæpasamtökin eru sem eru að baki þessu" sagði Tony Walker, sá sem er yfirmaður átaksins á flugvellinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×