Erlent

Hæsti maður heims giftir sig

Heimsins hæsti maður, Bao Xishun, gifti sig við hefðbundna athöfn í Mongólíu í nótt. Bao, sem er 2,36 metrar á hæð og 56 ára, giftist þá konunni Xia Shuijan, sem er 28 ára og 1,67 metrar á hæð. Giftingin fór fram í grafhýsi Kublai Khan.

Bao hafði leitað að kvonfangi um allan heim en fann hana loks í heimabæ sínum, Chifeng, í norðurhluta Kína. Fyrir giftingu hyllti Bao forfeður sína eins og venja er á þessum slóðum. Að því loknu gekk hann á fund fjölskyldu brúðar sinnar og fékk hjá þeim te, sem merkir að fjölskyldan hafi samþykkt hann sem tengdason. Að tedrykkjunni lokinni fór athöfnin loks fram. Í henni var brúðurinn klædd rauðu, en í Kína táknar sá litur hamingju. Fleiri en tvö þúsund manns sóttu brúðkaupið.

Bao var staðfestur sem hæsti maður heims á síðasta ári - orðinn tveimur millimetrum hærri en helsti keppinautur hans, Radhouane Charbib frá Túnis. Bao þroskaðist eins og jafnaldrar sínir fram að sextán ára aldri en þá hófst vaxtarkippur sem læknar gátu ekki útskýrt. Sjö árum síðar var hann orðinn eins hár og hann er í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×