Viðskipti innlent

Tæknisafn Íslands í burðarliðnum

Ferðamálafélags Flóamanna vinnur að stofnun fyrsta tæknisafns Íslands. Fyrsta áfanga undirbúningsstarfsins er nú lokið. Í fréttatilkynningu frá Valdimari Össurarsyni verkefnisstjóra gengur starfið vel. Víða sé leitað ráðgjafar og samráðs, svo sem við tæknisöfn og vísindastofur erlendis.

Í samtali við Vísi sagði Valdimar staðsetningu safnsins óákveðna en að stefnt væri að því það verði einhverstaðar á Suðurlandi. Þó bætti hann við að vissulega fylgi því ókostir að vera fjarri Höfuðborgarsvæðinu. Þá hefur dagsetning opnunar ekki verið sett.

Í fréttatilkynningunni segir að löngu sé orðið tímabært að stofna þjóðartæknisafn á Íslandi og að Íslendingar séu miklir eftirbátar annarra þjóða að þessu leyti.

Flóamenn hafa víða fengið góð viðbrögð við hugmynd sinni, svo sem á Alþingi þar sem sammælst var um að þarft mál væri á ferðinni.

Kennaraháskóli Íslands/SRR sendi nýverið frá sér sérfræðiálit sem fjallar um gagnsemi og nauðsyn Tæknisafns Íslands fyrir íslenskt menntakerfi. Í skýrslunni segir meðal annars. "Stofnun Tæknisafns Íslands er brýnt og tímabært verkefni. Tæknisafn er mikilvæg menningarstofnun sem gegnir stóru samfélagslegu hlutverki".

Á síðu Flóahrepps er tæknisafni lýst efnislega svona:

  • Saga tækni- og vísindaþróunar í heimalandinu og fræðsla um vélar og tækni.
  • Uppfinningamenn, hugsuðir og helstu sérkenni tæknimenningar.
  • Miðlun fræðslu, áhugavakning og örvun sköpunargleði á hinum ýmsu greinum tækni og vísinda.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×