Í dag eru fimmtíu dagar síðan Madeleine McCann var rænt úr sumarleyfisíbúð í Portúgal. Í tilefni af því var gulum blöðrum sleppt í fimmtíu löndum klukkan tíu í morgun.
Fjöldi manns var samankominn á þaki Brimborgar þar sem sleppt var 50 blöðrum til að vekja athygli á leitinni að stúlkunni. Madeleine varð fjögurra ára stuttu eftir að henni var rænt í Praia da Luz þann þriðja maí síðastliðinn.
Ekkert hefur spurst til hennar síðan og hafa lögregluyfirvöld í Portúgal verið gagnrýnd fyrir rannsókn málsins. Verðlaunafé hefur verið heitið þeim sem getur leitt til þess að stúlkan finnist og hefur fjöldi þekktra einstaklinga lagt herferðinni lið.

