Erlent

Átök hafin á Vesturbakkanum

Arabaþjóðir fordæma ástandið á Gaza og Vesturbakka Palestínu og hafa lýst yfir stuðningi við Mahmoud Abbas forseta landsins. Hundruðir byssumanna réðust inn í stofnanir á Vesturbakkanum þar sem átök hófust í dag. Upplýsingastjóri alþjóða Rauða Krossins segir Genfarsáttmálann hafa verið margbrotinn síðustu daga.

Um 150 manns hafa látist í átökunum á Gasa síðustu viku og yfir sex hundruð manns hafa slasast. Fatah hreyfingu forsetans var bolað frá völdum og Hamas-liðar hafa lagt undir sig Gasa.

Byssumenn sem styðja Fatah hreyfinguna hafa nú ráðist til inngöngu í alþingishús Palestínumanna í Ramallah á Vesturbakkanum þar sem átök hófust í morgun. Einnig var ráðist inn í stofnanir í Nablus.

Utanríkisráðherrar Arabaríkja funduðu í Caíró í Egyptalandi og fordæmdu átökin. Þeir hvöttu Hamas og Fatah til að enda átökin og hefja samvinnu.

Yves Daccord upplýsingastjóri alþjóða Rauða kossins segir ástandið hafa verið óviðunandi fyrir almenna borgara á svæðinu áður en átökin hófust. Hann segir Genfarsáttmálann hafa verið margbrotinn síðustu daga og nefnir sem dæmi að vígamenn hafi ráðist inn á sjúkrahús og drepið fjóra, þar á meðal mann sem lá á skurðarborðinu.

Abbas forseti skipaði í gær hinn óháða Salam Fayad í embætti forsætisráðherra. Hann mun sverja embættiseið í dag. Ismail Hanya úr röðum Fatah neitar hins vegar að láta af embættinu. Hamasliðar hafa lýst því yfir að skipun í forsætisráðherraembætti sé ógild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×