Erlent

Orrustuþota skaut út flugmanni sínum

Óli Tynes skrifar
Sænsk Gripen orrustuþota.
Sænsk Gripen orrustuþota.

Sænskur orrustuflugmaður vissi ekki hvaðan á hann stóð veðrið þegar hann hékk allt í einu í fallhlíf sinni og sveif rólega til jarðar. Það síðasta sem hann mundi var að hann var að beygja Gripen orrustuflugvél sinni í átt að flugvellinum þegar hún allt í einu skaut honum út. Mannlaus vélin hrapaði svo til jarðar, en lenti fjarri byggð og olli engu tjóni. Flugmaðurinn slapp sömuleiðis ómeiddur.

Í kjölfarið hefur sænski flugherinn sett flugbann á C og D útgáfurnar á Gripen. Umræddur flugmaður er 37 ára gamall og hefur flogið Gripen vélum í sjö ár.

Hann er einn af þjálfunarflugmönnum flughersins. Rannsóknarnefnd hersins skoðar nú svarta kassa vélarinnar til þess að reyna að komast að því hvers vegna hún skaut flugmanni sínum út fyrirvaralaust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×