Innlent

Hjúkrunarfræðingar á starfsmannaleigum

Dæmi eru um að hjúkrunarfræðingar segi upp störfum á Landspítalanum til að vinna þar í gegnum starfsmannaleigu. Þrjár íslenskar starfsmannaleigur eru með um sextíu hjúkrunarfræðinga á skrá hjá sér til að þjónusta spítala og stofnanir. Með því móti ná hjúkrunarfræðingarnir talsvert betri kjörum en ef þeir réðu sig beint á spítalann.

Eftir því sem fréttastofa kemst næst eru þrjú fyrirtæki sem leigja starfsmenn sína til spítala og sjúkrastofnana, það eru Alhjúkrun, Ethnic care Ísland og Inpro, með á sjöunda tug starfsmanna í vinnu. Vigdís Jónsdóttir framkvæmdastjóri Inpro vildi lítið tjá sig um umfang fyrirtækisins í dag. Hún sagði þó að starfsmannaleigur sem þessar skapa fjölbreyttari atvinnugrundvöll fyrir hjúkrunarfræðinga - enda sé nánast einn kaupandi að vinnu þeirra, hið opinbera. Vigdís benti líka á að löng hefð væri fyrir svona afleysingaþjónustu í nágrannalöndunum og þyki nauðsynleg.

Alhjúkrun er með 30 starfsmenn og hefur meðal annars samninga við Landspítalann og dvalarheimili aldraðra. Eins og forsvarsmenn hinna fyrirtækjanna vill eigandinn ekki upplýsa hverju munar á hjúkrunarfræðingslaunum hins opinbera og hjá Alhjúkrun.

Dagmar segir starfsmenn Alhjúkrunar njóta sömu lífeyris- og veikindaréttinda og starfsmenn hins opinbera. Auk þess fái þeir veikindaga greidda út mánaðarlega - nýti þeir sér þá ekki.

Yngsta fyrirtækið er Ethnic care Ísland en eigandinn Sigríður Þorsteinsdóttir segist einkum þjónusta öldrunarstofnanir. Aðspurð hvers vegna hún stofnaði fyrirtækið, svaraði Sigríður: Ég get borgað hjúkrunarfræðingum betri laun. Það er svo einfalt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×