Innlent

Leikskólar og slökkvilið í samstarf

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hóf í dag samstarf við leikskóla um eldvarnareftirlit og fræðslu til starfsfólks og elstu barna á leikskólum. Fleiri slökkvilið munu taka þátt í samstarfinu en fyrsti samningur þessa efnis var undirritaður við leikskólann Norðurberg í Hafnarfirði í dag.

Krakkarnir á Norðurbergi tóku vel á móti slökkviliðsmönnum þegar samningurinn var undirritaður þar í dag og sungu fyrir gestina.

Markmið samningsins er að tryggja að eldvarnir í leikskólum séu alltaf eins og best verður á kosið og fara fulltrúar barna á hverjum leikskóla ásamt leikskólakennurum um leikskólann og athuga hvað má bæta og hvað ekki. Þá á verkefnið að veita elstu börnunum fræðslu um eldvarnir, kynna þeim starf slökkviliðsmanna og minna foreldra á mikilvægi þess að hafa eldvarnir á heimilum í lagi.

Börnin á Norðurvangi eru þau fyrstu til að taka þátt í verkefninu og fengu af því tilefni viðurkenningarskjal. Þá fengu þau að skoða slökkvibíla og slökkvitæki.

Samningurinn er gerður í samvinnu við Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands og nær verkefnið til 150 leikskóla á höfuðborgarsvæðinu og 2500 barna ár hvert. Um 50 slökkvilið eru starfrækt á landinu í um 70 sveitarfélögum og er það von .Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélags Íslands að samningar náist við þau öll svo verkefnið standi öllum leikskólum til boða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×