Körfubolti

Cleveland - Detroit í beinni í kvöld

Hér má sjá troðsluna rosalegu sem James smellti á Detroit í öðrum leiknum, en þar var boðið upp á óvenju margar glæsitroðslur
Hér má sjá troðsluna rosalegu sem James smellti á Detroit í öðrum leiknum, en þar var boðið upp á óvenju margar glæsitroðslur NordicPhotos/GettyImages

Þriðji leikur Cleveland Cavaliers og Detroit Pistons í úrslitarimmu Austurdeildarinnar í NBA verður sýndur beint á sjónvarpsstöðinni Sýn klukkan hálf eitt í nótt. Detroit hefur 2-0 yfir í einvíginu eftir nauma sigra í tveimur fyrstu leikjunum á heimavelli þar sem lokatölur urðu 79-76 í báðum leikjum. Þar hafði Cleveland bullandi tækifæri til að stela sigrinum í bæði skipti og því verður forvitnilegt að sjá hvernig liðinu tekst til á heimavelli í næstu tveimur leikjum.

Liðin mættust í undanúrslitum Austurdeildarinnar á síðustu leiktíð og þá náði Detroit einnig 2-0 forystu með sigri í heimaleikjunum sínum tveimur. Þá náði Cleveland hinsvegar að snúa rækilega við blaðinu og vinna þrjá næstu leiki - öllum að óvörum. Detroit náði þó að snúa einvíginu sér í hag aftur og vann síðustu tvo leikina og mætti Miami í úrslitum Austurdeildarinnar.

Leikmenn Cleveland treysta á að þessi reynsla muni reynast liðinu vel í næstu tveimur leikjum. "Við höfum verið í þessari stöðu áður og það skiptir miklu máli þegar svona er komið. Við vitum hvað við þurfum að gera og hvað við þurfum að gera til að ná sigri í þriðja leiknum," sagði LeBron James, sem hefur verið mikið í sviðsljósinu í fyrstu tveimur leikjunum.

Cleveland vann 30 leiki og tapaði aðeins 11 á heimavelli í deildarkeppninni í vetur og hefur unnið þar fjóra af fimm leikjum sínum í úrslitakeppninni. Miðherjinn Zydrunas Ilgauskas er bjartsýnn fyrir leikinn í kvöld. "Við vitum að við getum unnið þá, en þó við séum á heimavelli er ekki nóg að mæta bara í leikinn - -ef við höldum að þetta verði auðvelt verkefni - verðum við strax komnir 3-0 undir áður en við vitum af," sagði Ilgauskas.

Detroit-liðið hefur oft spilað betur en í leikjunum tveimur gegn Cleveland, en það sem mestu hefur munað er hvað framherjinn Tayshaun Prince hefur verið ískaldur í einvíginu við Cleveland. Hann hefur aðeins hitt úr einu af 19 skotum sínum til þessa í fyrstu tveimur leikjunum. Hann eyddi miklum tíma í skotæfingar eftir annan leikinn og sagðist vera kominn með lausnina við kuldanum. "Ég ætla bara að vera ég sjálfur," sagði Prince. "Ég var ekki ég sjálfur í fyrstu tveimur leikjunum og ég treysti því að ef ég geri alla hinu litlu hlutina á vellinum - muni skotin koma af sjálfu sér."

Prince hefur fengið það óöfundsverða hlutskipti að gæta LeBron James í vörninni og hefur staðið sig vel. James er raunar með 24 stig, 7,8 fráköst og 8,1 stoðsendingu að meðaltali í einvíginu, en hann hefur þurft að vinna vel fyrir öllu sínu hingað til.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×