Innlent

Strandsiglingar hefjast

Guðjón Helgason skrifar

Norðlendingar hafa ákveðið að hefja strandsiglingar hringinn í kringum landið. Siglt verður héðan til Danmerkur og Eystrasaltsríkjanna. Til þess hefur verið keypt rúmlega þrjú þúsund tonna fjölnota flutningaskip sem siglt verður hingað frá Lettlandi eftir helgi.

Það er fyrirtækið Dregg á Akureyri sem hefur fest kaup á skipinu sem heitir Greenland Saga. Ari Jónsson, forstjóri, segir þetta 3.200 tonna fjölnota flutningaskip.

Dregg selur fráveitulagnir og ýmsa járnvöru. Ari segir að hann og fleiri hjá fyrirtækinu hafi fljótlega áttað sig á því að erfiðlega gengi að reka það miðað við aðstöðuleysi í samgöngum á Íslandi. Flytja þurfi mikið af vörum og fyrirtækið meðal annars gert stóran samning við Dani. Þar með hafi verið kominn töluverður grundvöllur fyrir kaupunum og þeir þá ákveðið að afla þess sem á vantaði.

Áætlað er að sigla til og frá Danmörku, Eystrasaltsríkjanna og jafnvel Bretlands og hringinn í kringum Ísland. Siglt verður á Austfirði, til Akureyrar, Ísafjarðar og Sandgerðis auk annarra stað verði þess óskað.

Farið verður með vörur til og frá landinu og milli staða - bæði vörur frá Dregg og öðrum aðilum sem vilji nota þjónustuna. Áhöfn skipsins verður að mestu eistnesk og skipið skráð á eyjunni Mön. Ari vill lítið tjá sig um verðið á skipinu, sagði það kosta augun út en það vendist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×