Innlent

Hvetur stjórnvöld til að skrifa undir fleiri mannréttindasamninga

Guðjón Helgason skrifar

Íslendingar hafa ekki skrifað undir eða fullgilt alþjóðasamning um réttindi farandverkafólks og ekki fullgilt evrópusamning gegn mansali. Framkvæmdastjóri íslandsdeildar Amnesty International hvetur nýja ríkisstjórn til að gera það og skrifa undir aðra mikilvæga mannréttindasamninga.

Ársskýrsla Amnesty International var kynnt í gær. Í henni er greint frá ástandi mannréttinda í hundrað fimmtíu og þremur löndum. Grunnskilaboðin eru þau að voldugar ríkisstjórnir og vopnaðir hópar hafi magnað vísvitandi upp ótta meðal fólks í því skyni að grafa undan mannréttindum og valda sundrungu manna á meðal.

Fjallað eru ástand á átakasvæðum víða um heim, þar á meðal í Darfur-héraði í Afríkuríkinu Súdan sem er lýst sem blæðandi sári á samvisku heimsins. Tvö hundruð þúsund manns hafi týnt lífi í átökum og rúmlega tífallt fleiri hrakist frá heimilum sínum. Gagnkvæmt vantraust og leynimakk öflugustu ríkja Sameinuðu þjóðanna valdi því að þau geti ekki eða vilji bregaðst við mannréttindabrotum á svæðinu.

Í skýrslunni er einnig að finna lista yfir alþjóðlega mannréttindasamninga og þau lönd sem eigi eftir að gerast aðilar að þeim eða fullgilda þá.

Jóhanna K. Eyjólfsdóttir, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty International, bendir á að Íslendingar hafi enn ekki skrifað undir eða fullgilt alþjóðasamning um réttindi farandverkafólks og ekki fullgilt evrópusamning gegn mansali. Jóhanna segir nokkra aðra samninga sem íslensk yfirvöld hafi látið undir höfuð leggjast að fullgilda. Hún hvetur því nýja ríkisstjórn til að gera stórátak í því að Íslendingar verði aðilar að öllum mikilvægustu mannréttindasamningum og sáttmálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×