Jeff Van Gundy var í gær rekinn úr starfi sínu sem þjálfari Houston Rockets í NBA-deildinni, en lærisveinar hans féllu úr keppni í fyrstu umferð úrslitakeppninnar fyrr í þessum mánuði. Svo slakur árangur var með öllu óviðunandi að mati forráðamanna liðsins, en í liðinu er að finna stjörnuleikmenn á borð við Yao Ming og Tracy McGrady.
Van Gundy stjórnaði Houston í fjögur ár og leiddi liðið til sigurs í 182 leikjum. 146 leikir töpuðust. Undir stjórn Van Gundy komst Houston þrívegis í úrslitakeppnina, en í öll skiptin féll liðið úr leik í fyrstu umferð.