Erlent

Fíkniefnahljóð á netinu

Íslensk ungmenni hafa sótt sér hljóðskrár á netið sem sögð eru hafa viðlíka áhrif á vitundina og eiturefni á borð við kókaín, marijúana og fleiri vímuefni. Lífeðlisfræðingur við Háskóla Íslands hefur ekki áhyggjur af skaðsemi hljóðanna, en telur æskunni betur varið í skemmtilegri afþreyingu.

Sköpunargleði athafnamanna á netinu eru lítil takmörk sett. Nú er hægt að kaupa þar hljóðskrár sem eiga að líkja eftir þeirri vímu sem fæst með notkun til dæmis á kókaíni, marijúana, áfengi og e-pillum.

Virknin á að nást með því að hlusta í minnst hálftíma í myrkvuðu herbergi. Ljóst er af íslenskum spjallþráðum að íslendingar hafa prófað:

kmobo segir:

"ég prufaði marijuana... og þegar ég lagðist í rúmmið... og lokaði augunum... fór mig ...að kitla í tærnar :P svo... fann ég að augun ... voru farinn að kippast frekar mikið til, en svo sofnaði ég held ég og sá fullt af fjólubláu bara, sá líka svona skemtilega, glóandi grænar brekkur..."

Malsumis skrifar:

"Varð helvíti skakkur af þessu eftir 3 tilraunir..."

Þór Eysteinsson lífeðlisfræðingur segir hljóðin geta haft einhver áhrif á vitund manna - þó ekki eins mikla og gefið er í skyn á www.i-doser.com. Hann segir alkunna að hægt sé að róa fólk með ákveðnum hljóðum og að ýmislegt standist sem á heimasíðunni stendur. Þar er m.a. vitnað í virt fagtímarit á sviði taugavísinda. Hins vegar gangi menn þar lengra en vísindin gefa tilefni til.

Starfsmenn félagsmiðstöðvarinnar Bóls í Mosfellsbæ vöruðu í dag unglingana við að hlusta á þessar hljóðskrár. Þór hefur ekki áhyggjur af skaðsemi þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×