Innlent

Fjögurra mánaða fangelsi fyrir heimilisofbeldi

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í fjögurra mánaða fangelsi fyrir líkamsárás gagnvart sambýliskonu sinni. Var honum gefið að sök að hafa kýlt hana í andlit og höfuð þannig að hún hlaut skurð á höfði, fyrir ofan efri vör og missti fjórar tennur.

Fram kemur í dómnum að til átaka hafi komið milli sambúðarfólksins eftir orðahnippingar og eftir að konan hafði kastað síma í bak mannsins. Maðurinn viðurkenndi árásina en bar fyrir sig að konan hefði tvisvar ráðist á sig með glerbroti.

Dómurinn mat það út frá frásögn mannsins að hann hefði augljóslega haft undirtökin í átökunum og taldi dómurinn ótrútverðugt að hann hefði þurft að verjast árásum konunnar með ítrekuðum höggum í andlit hennar og höfuð. Var hann því sakfelldur.

Við ákvörðun refsingar var litið til þess að ákærði réðst á sambýliskonu sína á heimili þeirra þar sem börn þeirra voru sofandi. Jafnvel þótt fram væri komið að upphaf átakanna mætti rekja til þess að konan hefði kastað síma í bak ákærða í kjölfar orðahnippinga réttlætti það á engan hátt árás mannsins.

Auk fjögurra mánaða fangelsis var maðurinn dæmdur til að greiða konunni um 454 þúsund krónur í miskabætur vegna árásarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×