Viðskipti innlent

Mylan kaupir samheitalyfjahluta Merck

Úr framleiðslustöð Merck KGaA í Darmstadt í Þýskalandi.
Úr framleiðslustöð Merck KGaA í Darmstadt í Þýskalandi. Mynd/AFP

Þýska lyfjafyrirtækið Merck greindi frá því í dag að það hefði ákveðið að selja samheitalyfjahluta fyrirtækisins til bandaríska lyfjafyrirtækisins Mylan Laboratories. Kaupverð nemur 4,9 milljörðum evra, jafnvirði rúmra 426 milljarða íslenskra króna. Actavis var lengi vel á meðal þeirra sem helst komu til greina sem kaupendur á samheitalyfjahlutanum. Fyrirtækið dró sig hins vegar úr baráttunni í byrjun mánaðar.

Talsmaður Merck segir í samtali við fréttastofu Reuters í dag að andvirði af sölunni á samheitalyfjahluta fyrirtækisins verði notað til að greiða niður skuldir. Þá verður hluti þess notaður til að greiða hluthöfum arð, sem greiðist sérstaklega vegna sölu á þessum hluta fyrirtækisins.

Fjöldi lyfjafyrirtækja víða um heim öttu kappi um kaup á samheitalyfjahluta Merck þegar hann var settur í söluferli í byrjun árs. Smátt og smátt tvístraðist úr hópnum, síðast í byrjun maí þegar Actavis, sem lengi vel var á meðal líklegustu kaupenda og eitt fjögurra fyrirtækja sem lagði inn bindandi tilboð í samheitalyfjahlutann, greindi frá því að það hefði ákveðið að fara ekki lengra.

Þegar fjögur tilboð lágu fyrir kannaði stjórn Merck hvort bjóðendur hefðu hug á að hækka boð sín. Á því stigi ákvað Actavis að draga sig í hlé og var haft eftir Róberti Wessman, forstjóra fyrirtækisins, að samheitalyfjahlutinn væri orðinn of dýr. Taldi hann líkur á að endanlegt kaupverð myndi nema um 4,6 milljörðum evra, rétt rúmlega 400 milljörðum íslenskra króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×