Innlent

Bæjarstjóri lofar að aðstoða MND sjúkling

Gunnar Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs segir bæjarfélagið vinna að því fullum fetum að finna lausn á vanda Óskars Óskarssonar sem hefur búið á Landspítalanum frá því síðast liðið haust. Mun dýrara er að vista manninn á taugalækningadeild en að hann fái heimahjúkrun.

Óskar Óskarsson er MND sjúklingur. Eins og við greindum frá í fréttum okkar í gærkvöldi býr hann í einu litlu herbergi á taugadeild Landspítalans vegna þess að ekki hefur verið hægt að fá heimahjúkrun fyrir hann.

Bæjaryfirvöld í Kópavogi, sem eiga að útvega Óskari þá félagsþjónustu sem hann þarf á að halda ber við manneklu en í bréfi sem félagsmálayfirvöld sendu sendu frá sér vegna málsins og fréttastofa hefur undir höndum segir að ekki hafi tekist að fá manneskju til að sinna Óskari en að leitað væri lausna á málinu. Bréfið er dagsett 11. desember eða fyrir tæpu hálfu ári.

Gunnar Birgisson bæjarstjóri Kópavogs segir að nú verði gengið í málið. Hann lofar að Óskar verði kominn heim innan skamms en fram til þessa hafi reynst erfitt að finna manneskju til að annast hann.

Guðjón Sigurðsson formaður MND félagsins gaf lítið fyrir þessa afsökun í fréttum okkar í gærkvöldi og stakk upp á að laun þessa hóps yrðu hækkuð.

Gunnar Birgisson segir það ekki ganga upp því það myndi koma af stað launaskriði.

Á meðan Óskar býr á Landspítalanum borgar ríkið brúsann. Hver legudagur á spítalanum kostar þúsunda og augljóslega er mun ódýrara fyrir samfélagið að hann búi heima hjá sér og fái heimahjúkrun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×