Viðskipti innlent

Saga Capital fær fjárfestingarbankaleyfi

Lykilstjórnendur Saga Capital
Lykilstjórnendur Saga Capital

Saga Capital Fjárfestingarbanki hlaut í liðinni viku fullt fjárfestingarbankaleyfi Fjármálaeftirlitsins. Lokuðu hlutafjárútboði, sem félagið efndi til í ársbyrjun, er nú lokið og er eigið fé Saga Capital nú 10 milljarðar króna. Bankinn hefur formlega starfsemi á morgun.

Í tilkynningu frá bankanum kemur fram að félagið hafi fengið aðild að Nordic Exchange á Íslandi frá og með 30. apríl síðastliðnum og varð þar með fyrsti aðilinn sem hefur viðskipti á hlutabréfa- og skuldabréfamarkaði Nordic Exchange á Íslandi eftir sameininguna við OMX þann 2. apríl síðastliðinn.

Saga Capital er alþjóðlegur fjárfestingarbanki, sem sérhæfir sig í fyrirtækjaráðgjöf, útlánum og verðbréfamiðlun. Bankinn stýrir að auki eigin fjárfestingum með virkri þátttöku á innlendum og erlendum verðbréfamörkuðum. Saga Capital var stofnað í október 2006 af nokkrum fyrrverandi starfsmönnum íslensku viðskiptabankanna og völdum fagfjárfestum. Höfuðstöðvar félagsins eru á Akureyri en það er jafnframt með skrifstofur í Reykjavík. Ætlunin er að opna skrifstofu í Eystrasaltslöndunum í náinni framtíð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×