Viðskipti innlent

Tap Össurar 184 milljónir króna

Stoðtækjafyrirtækið Össur skilaði 2,7 milljóna dala tapi á fyrstu þremur mánuðum ársins. Það jafngildir 184 milljóna króna tapi á tímabilinu samanborið við tap upp á 571 þúsund dali, 36,6 milljónir króna á sama tíma í fyrra. Tekjur voru í takt við væntingar greiningardeilda viðskiptabankanna.

Í uppgjöri Össurar kemur fram að sala jókst um 34 prósent frá fyrsta ársfjórðungi í fyrra og nam 80,4 milljónum króna, jafnvirði 5,5 milljörðum íslenskra króna.

Þá nam rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og skatta (EBITDA) 10,2 milljónum dala, 698 milljónum íslenskra króna, sem er 19 prósenta aukning frá sama tíma í fyrra. EBITDA-hlutfall nam 12,7 prósentum og lækkar úr 14,3 prósentum á fyrsta ársfjórðungi á síðasta ári.

Haft er eftir Jóni Sigurðssyni, forstjóra Össurar, að fyrirtækið hafi farið í umfangsmikla endurskipulagningu á sölukerfinu í Ameríku í febrúar sem hafi verið liður í lokaáfanga samþættingar á stuðningsfyrirtækjunum sem Össur hefur keypt þar. „Þetta kemur niður á söluvexti og rekstrarniðurstöðum til skemmri tíma litið. Sé litið til lengri tíma munu breytingarnar hafa verulega jákvæð áhrif. Það eru krefjandi tímar framundan en við sjáum nú fyrir endan á þessu tímabili og hlökkum til þess að uppskera árangurinn. Í Evrópu sjáum við hægan viðsnúning; niðurstöður eru sérlega ánægjulegar í Bretlandi og í Þýskalandi, segir hann.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×