Viðskipti innlent

Glitnir spáir 4,3 prósenta verðbólgu

Greiningardeild Glitnis spáir því að vísitala neysluverðs hækki um hálft prósent á milli mánaða í maí. Gangi það eftir mun ársverðbólga lækka úr 5,3 prósentum í 4,3 prósent. Helstu ástæðurnar fyrir verðbólgulækkuninni eru minni verðhækkanir á húsnæði og í apríl auk þess sem aðgerðir stjórnvalda á neysluverði hafi skilað sér.

Í Morgunkorni greiningardeildarinnar segir að helstu ástæður verðbólgu um þessar mundir séu hækkandi húsnæðisverð og verðhækkun á bensíni og olíu en í maí megi reikna mað að verðhækkun þessara tveggja liða skýri um tvo þriðju hluta af spáðri hækkun milli mánaða, að sögn Glitnis sem bendir á að á móti vegi verðlækkun neysluverðs, sem virðist hafa skilað sér að mestu til neytenda í flestum flokkum. Helst vanti upp á að lækkunin hafi skilað sér í verðlækkun á veitingastarfsemi en þar vegi miklar launahækkanir og verðhækkun aðfanga þungt á móti.

Greiningardeildin spáir því að verðbólga muni lækka hratt upp frá þessu og fara niður undir 2,5 prósenta verðbólgumarkmið Seðlabankans á haustmánuðum. Muni hún svo aukast aftur eftir því sem líði á árið. Á fyrri hluta næsta árs er svo gert ráð fyrir að verðbólga aukist enn frekar og verði mest síðsumars í kringum 5 prósent.

Ástæða aukinnar verðbólgu á þessum tíma er veiking á gengi krónunnar á fyrri hluta næsta árs. Þá gerir deildin ráð fyrir því að gengið styrkist fljótt aftur og að vísitalan verði komin niður úr 133 stigum í 125 stig í árslok 2008.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×