Viðskipti innlent

Novator að yfirgefa símamarkaðinn

MYND/Vilhelm

Erlendir fjölmiðlar herma að Novator, fjárfestingafélag í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, hafi selt 10,8 prósenta hlut sinn, um helmingseign sína, í gríska símafélaginu Forthnet til þarlendra stofnanafjárfesta og annarra aðila. Novator er sagt vera að hverfa af símamarkaði í A-Evrópu.

Að sögn fréttavefs bandaríska vikuritsins Forbes nemur sölugengi hlutarins 10,5 evrum á hlut sem jafngildir því að markaðsverðmæti hans hlaupi á rétt rúmum 43 milljónum evra, jafnvirði tæpra 3,8 milljarða íslenskra króna.

Það er engu að síður 8,6 prósentum undir lokagengi Forthnet á fimmtudag.

Forbes hefur eftir heimildamönnum sem tengjast Forthnet að sala Novator sé liður í áætlunum félagsins að hverfa af símamarkaði á meginlandi Evrópu. Þannig er 65 prósenta hlutur félagsins í búlgarska símafélaginu BTC til sölu. Er gert ráð fyrir að söluferlinu ljúki um miðjan júní en markaðsverðmæti hlutarins hleypur á 146,3 til 173,8 milljörðum króna.

Novator kom fyrst inn í hluthafahóp Forthnet í september árið 200 en hefur verið að losa sig við hluti sína í félaginu síðan í janúar þegar Novator seldi 17,64 prósent af hlutabréfaeign sinni. Eftir söluna nú á Novator 10,2 prósent í Forthnet.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×