Innlent

Uppsagnir í Bolungarvík

Guðjón Helgason skrifar

Stærsti vinnuveitandi Bolungarvíkur hefur sagt upp meginhluta starfsfólks síns. 48 starfsmönnum hjá rækjuvinnslunni Bakkavík í Bolungarvík hefur verið sagt upp í landvinnslu félagsins. Hjá landvinnslunni störfuðu 60 manns áður en til uppsagna kom Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að rekstur rækjuvinnslunnar hafi gengið erfiðlega undanfarin ár.

Þungur rekstur hefur bitnað á lausafjárstöðu og hafi stjórn félagsins gripið til þess ráðs að selja hlut sinn í útgerðarfélaginu Rekavík. Sú ákvörðun hafði það hins vegar í för með sér að óvissa skapast um hráefnisöflun fyrir rækjuvinnsluna, sem hafi verið erfið fyrir.

Grímur Atlason, bæjarstjóri, segir að sálrænt geti þetta haft miklar neikvæðar afleiðingar ef ekki verði brugðist við. Bolvíkingar hafi gengið í gegnum þetta áður og nokkrum sinnum. Það sem bærinn geti gert sé að spíta í lófana og framkvæma. Rætt hafi verið við ríki, stjórnmálamenn og fyrirtæki. Mikilvægt sé einnig að koma fótunum undir aðra atvinnuvegi en sjávarútveg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×