Viðskipti innlent

Skipulagsbreytingar hjá FL Group

FL Group hefur ákveðið að gera breytingar á skipulagi félagsins. Þannig verður starfssvið eigin viðskipta (e. Proprietary Trading) útvíkkað, heiti þess breytt í markaðsviðskipti (e. Capital Markets) og mun hafa umsjón með skammtímafjárfestingum á verðbréfamörkuðum um heim allan og stöðutöku félagsins í gjaldeyri. Á sama tíma mun Benedikt Gíslason taka við starfi framkvæmdastjóra markaðssviðins í maí en Albert Jónsson, sem áður var í forsvari fyrir eigin viðskipt FL Group, láta af störfum.

Í tilkynningu frá FL Group segir ennfremur að markaðssviðið muni annast markaðsviðskipti fyrir fjárfestingarsvið FL Group, ráðgjöf og framkvæmd afleiðu- og verðbréfaviðskipta tengdum eignasafni félagsins á hverjum tíma, hvort sem er í fjárfestingar- eða áhættuvarnartilgangi.

Benedikt Gíslason hefur jafnframt verið ráðinn framkvæmdastjóri markaðsviðskipta FL Group og hefur hann störf 2. maí næstkomandi. Í tilkynningunni segir að Benedikt hafi áralanga reynslu af fjárfestingum á innlendum og erlendum mörkuðum og hafi á síðustu árum byggt upp og stýrt eigin viðskiptum Straums-Burðaráss Fjárfestingarbanka.

Þá hefja þrír aðrir starfsmenn störf hjá markaðsviðskiptum FL Group, en þeir hafa allir starfað hjá Straumi-Burðarási.

Albert Jónsson, sem áður var í forsvari fyrir eigin viðskipti FL Group, hefur ákveðið að snúa sér að öðrum verkefnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×