Innlent

Veitingahúsalisti ekki verið birtur

Samtök ferðaþjónustunnar hafa ekki ákveðið hvort þau ætli að bregðast við könnun Neytendastofu sem sýndi að meirihluti veitingahúsa hafa ekki lækkað hjá sér verð eftir fyrsta mars. Neytendastofa hefur ekki birt lista yfir þau veitingahús sem lækkuðu.

Neytendastofa birti niðurstöður sínar í síðustu viku. Í ljós kom að 54% þeirra veitingahúsa sem könnunin náði til hafa ekki lækkað verð eftir að virðisaukaskattur á matvæli lækkaði þann fyrsta mars. Könnunin náði til 84 veitingahúsa sem er brot af þeim veitingastöðum sem starfrækt eru á landinu. Tryggvi Axelsson forstjóri Neytendastofu sagði í síðustu viku að til greina kæmi að birta jákvæðan lista - yfir þau veitingahús sem lækkuðu. Enginn listi hefur verið birtur og Tryggvi sagði í samtali við fréttastofu nú í morgun að ekki hefði enn verið ákvörðun um hvort eða hvernig Neytendastofu ætlar að vinna úr þessum upplýsingum. Á annað hundrað helstu veitingahúsa landsins eru innan vébanda Samtaka ferðaþjónustunnar. Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri samtakanna, sagði í morgun að engin ákvörðun hefði verið tekin um að óska eftir listanum frá Neytendastofu. Samkvæmt hennar upplýsingum hefðu félagsmenn samtakanna almennt lækkað verð. Hins vegar væri verðlagning veitingahúsa ekki einfalt mál, menn skiptu sumir um rétti eftir árstíðum og verðbreytingar á veitingahúsum væru mjög hægfara - enda dýrt að prenta nýja matseðla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×