Innlent

Umhverfisvænar virkjanir í Þjórsá

Landsvirkjun heldur ótrauð áfram undirbúningi að virkjunum í neðri Þjórsá þrátt fyrir andstöðu meirihluta Sunnlendinga. Upplýsingafulltrúi fyrirtækisins segir virkjanirnar til fyrirmyndar í umhverfismálum.

Könnun sem fréttastofan birti í gær sýnir að tveir þriðju kjósenda í Suðurkjördæmi er andvígur virkjunum í neðri hluta Þjórsár en þriðjungur er þeim hlynntur. Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, segir niðurstöðuna lýsa viðhorfum í samfélaginu þessa dagana en þær muni ekki breyta áformum Landsvirkjunar í Þjórsá enda séu þær mjög umhverfisvænar.

En breyta þá viðhorf íbúa engu? „Jú, jú, auðvitað hugsum við og heyrum hvernig álit almennings er," segir Þorsteinn, „en það eru kosningar í vor, við skulum sjá til hvernig samfélagið lítur út eftir þær. Ein spurning segir ekki allt um viðhorf fólks. Fólk er klárara en svo. Það þekkir samhengi hlutanna, að virkjanir geti verið mikilvægur þáttur í þeirri hagsæld sem fólk sækist eftir."

Myndir sem Landsvirkjun hefur látið útbúa af þeim breytingum sem verða á virkjanasvæðinu eru að finna hér.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×