Innlent

Hvetja breska neytendur til að sniðganga íslenskan fisk

Oddur Ástráðsson skrifar

Hvalaverndunarsamtök í Bretlandi hvetja stórmarkaði og neytendur til að sniðganga fiskafurðir frá HB Granda vegna tengsla við Hval hf. Forstjóri Granda segir áeggjan samtakanna byggjast á gömlum upplýsingum og hefur ekki áhyggjur af því að verslun við Breta dragist saman.

Fram kemur í frétt á vef samtakanna, Whale and Dolphin Conservation Society að Grandi hf. sé í samstarfi við Hval hf. um geymslu á hrefnukjöti. Neytendur eru því hvattir til að sniðganga vörur frá Granda. Samkvæmt skoðanakönnun sem vitnað er í á vef samtakanna eru 82% Breta á móti hvalveiðum. Forstjóri Granda segist ekki hafa áhyggjur af því að verslun við Breta dragist saman.

Forstjórinn, Eggert B. Guðmundsson segir Granda hafa leigt Hval hf. húsnæði um nokkurra vikna skeið síðasta haust og að eignatengsl sem hvalverndurnarsamtökin bendi á eigi að vera lýðum ljós. Hann segir að Grandi eigi fasta og góða viðskiptavini í Bretlandi sem viti vel hvað skynsöm nýting sjávarstofna snúist um.

HB Grandi hefur mikilla hagsmuna að gæta í verslun við Bretland. Eggert segir að á milli 15 og 20 prósent af útflutningi fyrirtækisins fari þangað, á síðasta ári hafi Grandi selt fisk til Bretlands fyrir um tvo milljarða króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×