Viðskipti innlent

Actavis kaupir Lyfjaþróun

Actavis hefur keypt íslenska lyfjaþróunarfyrirtækið Lyfjaþróun hf., sem sérhæfir sig í þróun nefúðalyfja. Með kaupunum öðlast Actavis þekkingu á þróun á nýjum lyfjaformum sem félagið býr ekki yfir í dag. Kaupverð er ekki gefið upp.

Í tilkynningu frá Actavis kemur fram að á undanförnum árum hafi notkun nefúðalyfja aukist mikið, m.a. í formi hormóna og stera. Búist er við að heimsmarkaður fyrir nefúðalyf vaxi um 11 prósent á árinu og að heildarsala verði um 6 milljarðar bandaríkjadala, jafnvirði 398,4 milljarða króna.

Þá segir ennfremur í tilkynningunni að fyrirsjáanlegur góður vöxtur sé á næstu árum þar sem fjöldi einkaleyfa muni renna út. Í framtíðinni mun Actavis leitast við að skrá lyf Lyfjaþróunar á helstu markaði samstæðunnar og nýta þannig öflugt sölunet sitt um allan heim.

Lyfjaþróun var stofnað 1991 og starfa 13 manns hjá félaginu. Búist er við að fyrstu lyfin komi á markað á árinu 2010, en félagið hefur ekki selt lyf á Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×