Innlent

Bjóst við kröfu á hendur hótelinu

Hótelstjóri Hótels Sögu segist hafa búist við því að aðstandendur hvataferðar klámframleiðenda sem ekkert varð af myndu krefja hótelið um bætur. Hópnum var úthýst af Hótel Sögu eftir mikla umræðu um væntanlega heimsókn hans.

Einar Oddgeirsson, lögmaður Funix, fyrirtækisins sem stóð að hvataferðinni, segir að krafa verði lögð fram á hendur Hótel Sögu á næstu dögum. Verið sé að taka hana saman samkvæmt upplýsingum frá tugum manna sem telja sig hafa orðið fyrir fjárhagslegum skaða vegna ákvörðunar hótelhaldara. Einar vill ekki gefa upp hvað krafan gæti orðið há. Hann segir að farið verði með málið fyrir dómstóla ef krafan verði ekki tekin til greina eða ekki samið um hana.

Hrönn Greipsdóttir, hótelstjóri á Hótel Sögu, segir málið fara beint til lögfræðinga hótelsins og það komi henni ekki á óvart að hópurinn fari þessa leið. Hún segir þess nú að bíða að krafan komi fram og þá verði hún tekin fyrir og henni svarað. Hrönn segist ekki eiga von á að krafan verði hærri en sem nemi verðmæti flugferða þeirra sem í hópnum voru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×