Viðskipti innlent

Tölvumiðstöð sparisjóðanna fær nýtt nafn

Tölvumiðstöð sparisjóðanna heitir nú Teris. Ákvörðun um þetta var tekin á aðalfundi félagsins í dag. Hjá Teris, sem er upplýsingatæknifyrirtæki sem þjónustar fjármálafyrirtæki og á meðal stærstu upplýsingatæknifyrirtækja landsins, starfa 100 manns.

Nafnabreytingin er í takt við aukna áherslu þess á þjónustu við fyrirtæki utan sparisjóðanna, að því er segir í tilkynningu frá félaginu.

Þjónustu Teris er skipt í lausnir fyrir viðskiptabanka og fjárfestingabanka. Undir viðskiptabankalausnum má finna kortalausnir, inn- og útlánalausnir og almennar þjónustulausnir. Fjárfestingabankalausnir ná yfir markaðsviðskipti og eignastýringu, fjár- og áhættustýringu og einkabankaþjónustu.

Haft er eftir Sæmundi Sæmundssyni, forstjóra Teris, að félagið hafi þróast hratt síðustu ár og sé það í raun búið að sprengja utan af sér þann ramma sem settur var í upphafi. „Við ætlum okkur enn stærri hluti á þeim markaði í framtíðinni. Með nýju nafni og nýju skipulagi erum við enn betur í stakk búin til að verða eitt öflugasta upplýsingatæknifyrirtæki landsins," segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×