Innlent

Heimskautaréttur verður kenndur við HA

Háskólinn á Akureyri.
Háskólinn á Akureyri. MYND/Vísir
Undirritaður var samningur um að hefja meistaranám í heimskautarétti (polar law) við Félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri í dag. Dr. Guðmundur Alfreðsson, prófessor, mun veita náminu forstöðu.

Í náminu verður lögð sérstök áhersla á einstök svið þjóðaréttar svo sem umhverfis-, auðlinda- og hafrétt, réttindi minnihluta og frumbyggjarétt sem og landsrétt þjóða á heimskautasvæðinu. Einnig verður kennt um réttarstöðu, stjórnskipun og stjórnsýslu landsbyggðar, jaðarsvæða og örríkja á heimsskautasvæðinu.

Að auki verður ítarlega fjallað um lagalegar forsendur sjálfbærrar þróunar, festu og gagnsæi í stjórnsýslu, stefnumótun á norðurslóðum og nýjungar í þjóðarétti. Kennsla og námskeiðahald fer fram á ensku því gert er ráð fyrir þátttöku erlendra nemenda.

Náið samstarf verður haft við háskólana í Þórshöfn, Nuuk, Tromsø og Rovaniemi, auk Norðurheimskautsháskólans, um tilhögun námsins. Jafnframt hafa verið lögð drög að samvinnu við háskólana í Kaupmannahöfn, Osló, Lundi og í Åbo. Í september verður boðað til ráðstefnu á Akureyri, en þá koma saman væntanlegir kennarar og aðrir starfsmenn meistaranámsins auk fulltrúa samstarfsaðila um námið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×