Innlent

Sinfónía Norðurlands gerir tímamótasamning

Frá tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands í Gilinu 2006.
Frá tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands í Gilinu 2006. MYND/Sinfóníuhljómsveit Norðurlands

Nýr samningur á milli Akureyrarbæjar og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands var undirritaður í dag. Samningurinn tekur til starfsemi hljómsveitarinnar næstu þrjú árin. Með honum er tryggð áframhaldandi starfsemi hljómsveitarinnar. Framlög hækka um samtals 10,5 m.kr. á samningstímanum.

Samningurinn er reistur á samstarfssamningi ríkisins og Akureyrarbæjar um samstarf í menningarmálum. Meginmarkmiðið er að styðja við uppbyggingu SN sem meginstoð sígildrar tónlistar utan höfuðborgarsvæðisins.

Með þessum hætti er er stuðlað að því að Akureyri verði þungamiðja öflugs menningarstarfs. Áfram verður lögð áhersla á skapandi starf með börnum á Akureyri og í nágrenni en hljómsveitin hefur á undanförnum árum staðið fyrir kynningar- og fræðslustarfi fyrir grunnskólanemendur.

Helstu tímamótin á samningstímanum eru þau að menningarhúsið Hof verður tekið í notkun en þar verður aðalstarfsvettvangur hljómsveitarinnar. Þetta kemur til með að breyta möguleikum hljómsveitarinnar, auk þess sem áheyrendum verður boðið upp á fyrirmyndaraðstöðu.

Stefnt er að því að hljómsveitin haldi tónleika mánaðarlega yfir vetrartímann eftir að hún flytur í Hof.

Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri Akureyrar, er að sögn ákaflega ánægð með nýja samninginn. Hún segir bæjarbúa stolta af hljómsveitinni, en starfsemi hennar sé eitt af því sem hefur eflt og styrkt ímynd Akureyrar á undanförnum árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×