Innlent

Semja þurfi um frestun stækkunar álvers

Formaður Samfylkingar tekur undir með bæjarstjóranum í Hafnarfirði um að semja þurfi við Alcan og orkufyrirtæki um frestun á stækkun álversins í Straumsvík samþykki Hafnfirðingar stækkunina í lok mánaðarins.



Ný skýrsla Hagfræðistofnunar um hag Hafnfirðinga af stækkun álversins í Straumsvík var kynnt í gær. Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar sagði í fréttum Stöðvar tvö í gær að það væri Hafnfirðinga en ekki stjórnvalda, að taka ákvörðun um hvort af stækkun álversins í Straumsvík yrði eða ekki. Jafnvel þótt flokkar sem boðuðu stöðvun eða frestun stóriðjuframkvæmda kæmust til valda.



„Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir að allir sem hugsa það mál til enda sjái að það verður ekki hægt að taka neinar ákvarðanir um frestun á slíkum framkvæmdum, nema um það sé samkomulag við þá aðila sem eiga í hlut, " sagði Lúðvík í gær.



Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingar tók í sama streng í gær, í Íslandi í dag en taldi mikilvægt að ná samningum við álverið og orkufyrirtæki um að slá stækkun álversins á frest. Huga yrði að þenslu í samfélaginu og bíða eftir gerð rammaáætlunar um náttúruvernd. Ingibjörg sagði að ef ekki yrði af stækkun álversins yrði sjálfsagt að koma til móts við fjárhagslegar skuldbindingar þess gagnvart Landsvirkjun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×