Viðskipti innlent

Refresco kaupir í Bretlandi

Drykkjarvörufyrirtækið Refresco, sem er í meirihlutaeigu FL Group, Vífilfells og Kaupþings og með starfsemi á 13 stöðum í Evrópu, hefur fest kaup á breska drykkjarvöruframleiðandanum Histogram.

Histogram er fyrsta fyrirtækið sem Refresco kaupir í Bretlandi, en fyrir skömmu festi fyrirtækið kaup á Kentpol í Póllandi. Undir stjórn íslensku fjárfestanna hefur verið mörkuð sú stefna að stækka Refresco hratt með kaupum, samruna og/eða yfirtökum og kaupin á Histogram eru mikilvægt skref á þeirri leið.

Eigendur og stjórnendur Refresco líta á bæði Pólland og Bretland sem mikilvæg vaxtarsvæði fyrir fyrirtækið. Telja þeirað með kaupunum muni takast að ná fótfestu á þessum mikilvægu mörkuðum. Pólski markaðurinn er ört vaxandi og Bretland er stærsti markaður í Evrópu fyrir ávaxtasafa.

Refresco er að uppruna hollenskt fyrirtæki en er með framleiðslu á 13 stöðum í Evrópu, í Hollandi, Þýskalandi, Frakklandi, Spáni, Finnlandi og Pólandi og nú bætist Bretland við, að því er segir í tilkynningu frá félaginu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×