Innlent

Einn gámanna fundinn

Þyrla Landhelgisgæslunnar fann fyrir stundu einn af gámunum sem féllu fyrir borð af flutningaskipi við Reykjanes í gærkvöldi, og skipum stafar hætta af. Varðskip á að reyna að draga gáminn til lands.

Samtals féllu fimm 40 feta langir gámar af flutningaskipinu Kársnesi, þegar það fékk á sig brotsjó úti af Garðskaga á Reykjanesi um klukkan hálf sjö í gærkvöldi. Engan af 11 manna áhöfn skipsins sakaði þegar þetta gerðist.

Skipið er í eigu Atlantsskipa og var á leið frá Danmörku til Kópavogshafnar. Það hélt áfram siglingu sinni þangað.

Eftir atvikið gaf Landheglisgæslan út siglingaviðvörun til skipa um hættuna sem kann að stafa af gámunum marandi hálfum í kafi, en þeir geta marað þannig,jafnvel svo dögum skiptir, eins og gerðist þegar Dísarfellið sökk fyrir tíu árum.

Talið er að hinir fjórir gámarnir hafi sokkið þar sem þeir voru allir með þungum farmi, en sá sem fannst áðan, er tómur frystigámur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×