Innlent

Ökuníðingur verður kærður fyrir hegningarlagabrot

Ökuníðingur sem lögreglumenn á Austfjörðum eltu á ofsahraða á milli byggðarlaga í tvær klukkustundir í gær, verður kærður fyrir brot á hegningarlögum auk ótal umferðarlagabrota gærdagsins.

Lögreglumenn frá Egilsstöðum og Eskifirði eltu hann á ofsahraða fram og aftur á milli þéttbýlisstaða á Austfjörðum, meðal annars um Egilsstaði, Reyðarfjörð og Eskifjörð. Maðurinn nam loks staðar fyrir utan heimili sitt á Egilsstöðum. Þá voru lögreglumenn á fimm bílum við það að umkringja hann.

Áður voru lögreglumenn ítrekað búnir að gefa honum stöðvunarmerki, sem hann virti að vettugi. Hann mældist meðal annars á yfir 130 kílómetra hraða í gegnum þéttbýlið á Reyðarfirði, þar sem hámarkmshraði er 50 og á rösklega 180 á þjóðveginum um Fagradal, eða á yfir tvöföldum hámarkshraða í báðum tilvikum.

Maðurin var handtekinn og er enn í vörslu lögreglu. Hann ók öflugum amerískum sprotbíl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×