Viðskipti innlent

Tekjuafgangur hins opinbera 60,1 milljarður í fyrra

Tekjuafgangur hins opinbera nam 20 milljörðum króna á fjórða ársfjórðungi síðasta árs. Þetta er 1,4 milljörðum krónum betri afkoma en ári fyrr. Tekjuafgangur alls síðasta árs nam 60,7 milljörðum króna samanborið við 53,6 milljarða krónur árið á undan, að því er fram kemur í Hagtíðindum Hagstofunnar í dag.

Heildartekjur hins opinbera, ríkissjóðs, almannatrygginga og sveitarfélaga, eru áætlaðar rúmlega 141 milljarður króna á fjórða ársfjórðungi í fyrra samanborið við 128,5 á sama tíma árið á undan. Skatttekjur og tryggingagjöld vega þyngst í afkomunni en þau skiluðu hinu opinbera 122,5 milljörðum króna á tímabilinu samanborið við 110,6 milljarðar króna árið á undan.

Tekjur hins opinbera af þessu lið námu alls 533 milljörðum króna á árinu öllu og hækkuðu þær um 9,5 prósent á milli ára.

Þá námu heildarútgjöld ríkisins 472,2 milljörðum króna á árinu samanborið við 433,2 milljarðar árið á undan. Það er 9 prósenta hækkun á milli ára. Stærsti útgjaldaliðurinn er launakostnaður hins opinbera en hann nam 181,7 milljarði króna í fyrra samanborið við 160,4 milljarða krónur árið 2005. Hækkunin nemur 13,3 prósentum á milli ára.

Þá er áætlað að fjárfestingar hins opinbera hafi numið 35,8 milljörðum króna

á síðasta ári samanborið við 31,8 milljarða króna árið 2005.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×