Innlent

Alvarlegar athugasemdir við frumvarp um skipaskráningu

Alþýðusamband Íslands gerir alvarlegar athugasemdir við frumvarp til laga um íslenska alþjóðlega skipaskráningu. Frumvarpið verður afgreitt fyrir þinglok á Alþingi á morgun. ASÍ telur 11. grein þess brjóta gegn stjórnarskrá.

Þar er gerð kjarasamninga um störf á farskipum sem sigla undir íslenskum fána útilokuð öðrum en íslenskum ríkisborgurum með lögheimili hér á landi. ASÍ telur auk þess að hlutar frumvarpsins feli í sér veruleg frávik frá almennum lögum.

Sérfræðinganefnd og þing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar hafa ítrekað komist að þeirri niðurstöðu að samskonar ákvæði í dönskum lögum brjóti gegn samþykktum um félagafrelsi og rétt til að gera kjarasamninga.

ASÍ mælir eindregið gegn því að Alþingi samþykki ákvæði sem fyrirfram er vitað að brjóti gegn stjórnarskrá og mannréttindaákvæðum alþjóðlegra samninga sem Ísland hefur fullgilt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×