Viðskipti innlent

Verðbólgan meiri en spáð var

Verðbólga mældist 5,9 prósent í síðasta mánuði. Þetta er meiri verðbólga en greinendur gerðu ráð fyrir og að minnsta kosti þriðja verðbólgumælingin í röð þar sem verðbólga er yfir spám. Margt bendir til að fjárfestar telji líkur á að stýrivextir haldist háir lengur en gert hafði verið ráð fyrir.

Greiningardeild Glitnis bendir á það í dag að gengi krónunnar hafi hækkað nokkuð í kjölfar birtingar mánaðargildis vísitölu neysluverðs í dag, eða um tæp 0,3 prósent.

Deildin bendir á að af viðbrögðum á markaði megi ráða að fjárfestar telji auknar líkur á því að stýrivextir haldist háir lengur en áður hafði verið ráð fyrir gert. Spáir deildin því að Seðlabankinn taki að lækka vexti um miðjan maí og stýrivextir standi í 11,5 prósent í árslok. Nokkurrar óvissu gætir um málið enda setur greiningardeild Glitnis þann fyrirvara við spá sína að stýrivaxtalækkunarferlið geti hafist og vextir verði hærri í lok árs, þar sem verðbólguhorfur hafa verið að versna jafnt og þétt undanfarið.

Greiningardeildin bendir ennfremur á að samkvæmt þessu séu verðbólguvæntingar fjárfesta að aukast enda er þetta þriðja mælingin í röð þar verðbólga er meiri en væntingar stóðu til. „Það kemur ekki á óvart að krafa íbúðabréfa hafi lækkað við þessi tíðindi en við teljum þó að sú þróun verði skammvinn og hluti lækkunarinnar muni jafnvel ganga til baka á næstu dögum," segir greiningardeild Glitnis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×