Innlent

Verð á veitingum mikil vonbrigði

MYND/Getty Images

Geir Haarde forsætisráðherra segir það mikil vonbrigði að verð á veitingahúsum skuli ekki hafa lækkað meira en raun ber vitni. Hagstofan hafði reiknað með lækkun hjá veitingahúsum upp á tæplega 9 prósent, en raunlækkun er einungis rúmlega þrjú prósent. Geir sagði í hádegisviðtali Stöðvar 2 að það væri algjört lágmark að veitingaþjónustan skilaði sínu í átaki um að lækka matarverð: „Mér finnst þetta ekki gott."

Áhrif lækkunar á virðusaukaskatti á matvöru síðustu mánaðarmót eru ekki eins mikil og vonast var til. Lítil lækkun á veitingum er talin helsti orsakavaldur þess að virðisaukalækkunin síðustu mánaðarmót skilar sér ekki að fullu í neysluverð.

Ef ekki hefði komið til lækkunarinnar hefði vísitala neysluverðs (VNV) hækkað um 1,42 prósent milli febrúar og mars, en ekki lækkað um 0,34 prósent. Þetta kemur fram í morgunkorni Glitnis, en þar á bæ spáðu menn 0,7 prósenta lækkun VNV.

Virðisaukaskattslækkun á rafmagni til húshitunar skilaði sér ekki.

Verðbólga hefur hins vegar hjaðnað og hefur lækkað úr 7,4 prósentum í 5,9 prósent.

Mat Hagstofunnar var að virðisaukaskattslækkunin myndi skila 1,75 prósenta lækkun á VNV en raunin varð 1,38 prósent.

Markaðsverð húsnæðis heldur áfram að hækka og var í síðasta mánuði eitt prósent.

Þá spáir Glitnir því að áhrif af lækkun vörugjalda komi fram í apríl og leiði til 0,2 prósent lækkunar VNV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×