Innlent

1.500 til 2.000 tonn af vatni í bílakjallara

Slökkviliðið á Höfuborgarsvæðinu er nú að kljást við einn mesta vatnsleka sem það hefur komist í kast við en heill bílakjallari undir nýlegu fjölbýlishúsi við Sólvallagötu er umflotinn vatni. Húsið tilheyrir Sólvallagötu 80 til 84 en er bak við BYKO verslunina við Hringbraut. Að sögn slökkviliðs er bílakjallarinn um þúsund fermetrar og er vatnshæðin í honum um einn og hálfur metri.

Þess utan er kjallari undir bílakjallaranum sem er alveg á kafi. Áætlað er að um fimmtánhundruð til tvöþúsund tonn af vatni séu í húsinu. Tveir dælubílar ásamt dælum úr húsinu eru að losa vatnið og sér nú aðeins högg á, að sögn varðstjóra.

Kjallarinn er undir sjávarmáli og eru sjálvirkar dælur í kjallara hússins sem virðast hafa slegið út í nótt. Þó er þetta ferskvatn sem verið er að dæla upp en mikill vatnselgur var á götum þarna í kring í nótt. "Þetta hlýtur að jaðra við íslandsmet í vatnsleka", sagði varðstjóri slökkviliðs sem man ekki eftir öðru eins.

Um 15 til 20 bílar eru í kjallaranum og ljóst er að eitthvað tjón á eftir að hljótast af vatninu. Það hefur lekið inn í sama kjallara áður en það var á aðfangadag 2004. Þá var það sjór sem lak inn í kjallarann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×