Innlent

Formaður Lyfjaverðsnefndar sakaður um gáleysi

Fyrirtækið Portfarma ásakar Pál Pétursson, formann Lyfjaverðsnefndar, um að hafa látið fyrirtækið Actavis misnota sig í janúar þegar hann krafðist þess að Actavis lækkaði verð á samheitalyfjum hér til samræmis við verð sem það byði á öðrum Norðurlöndum. Actavis, sem ræður níutíu og átta prósentum markaðarins, hafi gripið tækifærið og lækkað að stórum hluta verð á lyfjum eina samkeppnisaðilans í landinu.

Olgeir Olgeirsson framkvæmdastjóri Portfarma sem hefur tveggja prósenta markaðshlutdeild á samheitalyfjamarkaði segir Actavis hafa tekið listann til athugunar og fallist á að lækka verðið á sumum, tekið önnur út af listanum og bætt við öðrum. Það hafi allt verið lyf sem Portfarma hafi verið með á markaði hérlendis.

Portfarma kvartaði til Samkeppniseftirlitsins en þar hefur ekki enn verið tekið á málinu. Olgeir segir að fyrir liggi þó að Páll Pétursson hafi sjálfur játa á fundi með talsmönnum fyrirtækisins að hafa verið notaður af Actavis. Hann hafi bitið á agnið. Portfarma hefur verið á markaði frá 2005 en áður réði Actavis öllum markaðnum. Olgeir segir samkeppni það eina sem getur lækkað lyfjaverð. En fyrir því sé ekki skilningur. Lyfjastofnun sé fámenn og óburðug til að sinna hlutverki sínu. Fyrirtækið ætlar að sækja um skráningu á tuttugu nýjum lyfjum á þessu ári, Miðað við afgreiðslutíma hingað til gæti það tekið tuttugu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×