Innlent

Áhersla lögð á öryggisráðsframboðið

Sendiherra Íslands í Suður-Afríku ætlar í starfi sínu að leggja áherslu á að afla stuðningsmanna í álfunni við framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Utanríkisráðherra landsins kveðst reiðubúinn að styðja framboðið.

Sendiráð Íslands í Pretoríu í Suður-Afríku var tekið formlega í notkun í síðustu viku þegar Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra opnaði vefsíðu þess. Suður-Afríka er öflugasta ríki álfunnar, bæði í viðskiptalegu og efnahagslegu tilliti. Því ætlar Sigríður Dúna Kristmundsdóttir sendiherra að leggja sérstaka áherslu á að afla Íslendingum bandamanna þar í framboðinu til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna tímabilið 2009-2010.

Af öðru sem íslenski sendiherrann í Suður-Afríku hyggst beita sér fyrir má nefna samstarf háskóla á Íslandi og í Suður-Afríku. Sigríður Dúna kveðst vongóð að strax á næsta ári muni nemendur og kennarar geta farið þangað til námsdvalar.

Valgerðar Sverrisdóttir og Dlamini-Zuma, utanríkisráðherra Suður-Afríku, hittust í Pretoríu í síðustu viku og á blaðamannafundi þeirra var Dlamini-Zuma spurð um afstöðuna til framboðs Íslands. Hún sagðist jákvæð fyrir framboðinu og gæti vel hugsað sér að styðja það og heimsókn Valgerðar til Afríku hefði ekki spillt fyrir möguleikum Íslands heldur þvert á móti.

Kosið verður í október 2008 og verða ríkin að fá 2/3 hluta atkvæða til að ná kjöri.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×