Handbolti

Ótrúleg frammistaða Ciudad í síðari hálfleik

Ólafur Stefánsson skoraði fimm mörk í leiknum í dag.
Ólafur Stefánsson skoraði fimm mörk í leiknum í dag. MYND/Pjetur

Ólafur Stefánsson skoraði fimm mörk, öll úr vítaköstum, þegar Ciudad Real bar sigurorð af Portland San Antonio, 26-21, í Meistaradeildinni í handbolta í dag. Það var stórkostleg spilamennska í síðari hálfleik sem tryggði Ciudad sigur í leiknum en liðið var fimm mörkum undir í hálfleik, 14-9. Þetta var fyrri leikur liðanna í 8-liða úrslitum keppninnar.

Viðsnúningurinn í leiknum í dag var með ólíkindum en leikmenn Portland léku við hvern sinn fingur í fyrri hálfleik og komu heimamönnum í Ciudad í opna skjöldu með ákveðnum leik. Liðið hafði 14-9 forystu í hálfleik en þessi lið áttust einmitt við í úrslitum Meistaradeildarinnar á síðustu leiktíð.

Evrópumeistarar Ciudad komu hins vegar með allt annað hugarfar inn í síðari hálfleik og var liðið búið að jafna metin í 14-14 eftir aðeins nokkrar mínútur. Gestirnir skoruðu sitt fyrsta mark í síðari hálfleik eftir rúmlega 10 mínútna leik en varnarleikur heimamanna var hreint stórkostlegur og engar glufur á vörninni að finna. Smátt og smátt bættist við forskot heimamanna og 26-21 sigur varð að lokum staðreynd.

Kasper Hvidt var ótrúlegur í marki Portland og kom í veg fyrir stærra tap. Hann varði 26 skot í leiknum, mörg hver úr algjörum dauðafærum. Liðin eigast við að nýju um næstu helgi, þá á heimavelli Portland.

Fyrr í dag höfðu Sigfús Sigurðsson og félagar hans í Ademar Leon unnið Bjerringbro-Silkeborg, 36-30, á útivelli í Evrópukeppni bikarhafa. Liðið er því afar góðri stöðu fyrir síðari leik liðanna eftir viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×