Viðskipti innlent

Besta afkoman í sögu Icelandair Group

Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair Group.
Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair Group. Mynd/Pjetur

Icelandic Group skilaði ríflega 2,6 milljarða króna hagnaði á síðasta ári. Félagið skilaði hins vegar 555 milljóna króna tapi á fjórða og síðasta rekstrarfjórðungi síðasta árs.

Þetta er besta afkoman í sögu félagsins, sem var skráð í Kauphöll Íslands undir lok síðasta árs.

Rekstrarhagnaður félagsins fyrir skatta og fjármagnsliði (EBITDA) nam 6 milljörðum króna. Þar af nam hagnaðurinn 338 milljónum króna á fjórða ársfjórðungi.

Þá námu heildartekjur Icelandair Group 56,1 milljarði króna á árinu. Þar af námu tekjurnar 12,6 milljörðum króna á fjórða ársfjórðungi.

Eignir Icelandair námu 76,6 milljörðum króna í lok síðasta árs. Handbært fé frá rekstri nam 6,4 milljörðum króna og var eiginfjárhlutfall 34 prósent.

Í tilkynningu er haft eftir Jóni Karli Ólafssyni, forstjóra Icelandair Group, að rekstur samstæðunnar hafi gengið mjög vel á síðasta ári og sé afkoman nokkuð betri en áætlanir gerðu ráð fyrir.

„Það er sérstaklega ánægjulegt nú þegar félagið hefur verið skráð í Kauphöll Íslands og er orðið almenningshlutafélag að geta kynnt nýjum hluthöfum góðan hagnað af starfseminni. Árangurinn byggir fyrst og fremst á frábæru og samhentu starfsliði og mikilli reynslu og þekkingu, sem við náum að nýta okkur til að ná góðum árangri. Við gerum ráð fyrir áframhaldandi vexti fyrirtækisins á næstu árum. Horfur eru almennt góðar og spár gera ráð fyrir vexti í atvinnugreininni," segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×