Viðskipti innlent

BA og Goldman Sachs ekki í yfirtökuhugleiðingum

Breska flugfélagið British Airways og bandaríski fjárfestingabankinn Goldman Sachs hafa ekki í hyggju að gera yfirtökutilboð í bandaríska flugrekstrarfélagið AMR Corporation, móðurfélag bandaríska flugfélagsins American Airlines. Gengi bréfa í FL Group, sem keypti tæpan 6 prósenta hlut í AMR undir lok síðasta árs, hækkaði mest um rúm 5 prósent í Kauphöll Íslands vegna frétta um hugsanlegt yfirtökutilboð í AMR.

Það var viðskiptaveitan BusinessWeek sem fyrst greindi frá því að fjárfestar hefðu hug á að gera yfirtökutilboð í AMR. Fréttin keyrði gengi bréfa í AMR upp og hefur það ekki staðið hærra í sex ár.

Fréttastofa Reuters segir verðmiðann fyrir AMR geta hlaupið á bilinu 9,8 milljörðum bandaríkjadala til 11,1 milljarðs. Það jafngildir 661,5 til tæplega 750 milljörðum íslenskra króna.

Greiningardeild Glitnis bendir á það í Morgunkorni sínu í dag að gengi bréfa í AMR hafi farið úr 38,05 dölu á hlut í 41,99 dali í gær. Sé talið að yfirtökuverðið sé á bilinu 46 til 52 dali á hlut. Deildin segir ekki vitað hvert meðalkaupverð hluta FL Group í AMR hafi verið en áætlar að það hafi hlaupið á um 28 til 29 bandaríkjadölum á hlut. FL Group greiddi um 27,6 milljarða íslenskra króna fyrir hlutinn, að sögn Glitnis.

Deildin bendir ennfremur á að við lokun markaða í gær hafði AMR hækkað um 25,9 prósent á árinu. Að meðtalinni 10 prósenta hækkun á eftirmarkaði í gær hefur það hins vegar hækkað um 38,9 prósent. Eignarhlutur FL Group hefur að sama skapi hækkað um 10,7 milljarða krónur það sem af er ári.

Hækkun á gengi bréfa í FL Group hefur gengið nokkuð til baka eftir því sem liðið hefur á daginn og nam hún um tvöleytið rétt um 1,91 prósenti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×