Innlent

Von á bóluefni gegn fuglaflensu

Frá einni af rannsóknarstofum GlaxoSmithKline í Belgíu.
Frá einni af rannsóknarstofum GlaxoSmithKline í Belgíu.

Evrópska lyfjastofnunin hefur samþykkt að taka við umsókn GlaxoSmithKline um skráningu á nýju bóluefni gegn inflúensuveiru af stofni H5N1, svokallaðri fuglaflensu.

Geri Evrópska lyfjastofnunin ekki athugasemdir eða óski eftir frekari gögnum frá fyrirtækinu, má vænta þess að bóluefni gegn fuglaflensu komi á markað á Íslandi og annarstaðar í Evrópu undir lok þessa árs.

GlaxoSmithKline á Íslandi er dótturfyrirtæki alþjóðafyrirtækjasamstæðunnar og sér um lyfjaskráningu og umsóknir til yfirvalda vegna nýrra lyfja.

Við framleiðslu bóluefnsins frá GSK er notuð ný tækni til að efla ónæmissvar sem gerir kleift að framleiða fleiri skammta bóluefnis en hingað til þar sem minna magn mótefnis þarf í hvern skammt. Við rannsóknir á þessu nýja lyfi var ónæmissvörun mjög góð, eða hjá yfir 80% þeirra sem tóku þátt. Að auki sýndi bóluefnið virkni gegn fleiri undirstofnum H5N1-inflúensuveira en notaðir eru við framleiðslu þess (krossónæmi).

Smit af völdum H5N1 fuglainflúensuveiru orsakar alvarlegan sjúkdóm, bæði í fuglum og mönnum. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur tilkynnt 267 tilfelli um smit í mönnum af völdum fuglainflúensuveiru (H5N1) og vitað er um 161 dauðsfall í alls 10 löndum af völdum veirunnar. Sérfræðingar í lýðheilsu óttast að H5N1 inflúensuveiran geti þróast yfir í veiruafbrigði sem auðveldlega smitast manna á milli og verði þar með að alheimsfarsótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×