Erlent

Lifði af 3.600 metra fall

Fallhlífastökkvari sem féll 3.600 metra til jarðar og lifði það af setti nýverið myndband af atvikinu á internetið. Á myndbandinu sést hvernig hann hrapar nær stjórnlaust til jarðar, og að því er virðist, dauða.

Michael Holmes varð heimsfrægur á svipstundu þann 12. desember í fyrra eftir að hafa komist lífs af með aðeins gat á lunga og brotinn ökkla. Bæði aðal- og varafallhlífar biluðu í stökkinu. Önnur þeirra opnaðist þó örlítið og hægði á honum í fallinu, úr 194 kílómetra hraða á klukkustund niður í aðeins 128 kílómetra hraða.

Myndavélin sem tók atvikið upp var föst við hjálm Holmes. Á síðustu sekúndunum sést hvernig hann veifar í myndavélina og heyrist segja „Bless!" áður en skuggi hans stækkar á jörðinni fyrir neðan. Síðan varð allt svart.

Vinur hans sem stökk með honum lenti nálægt honum og fór strax til hans. Vinurinn kallar til Holmes hvort það sé í lagi með hann og hann svarar bráðlega „Nei..."

Holmes er einn af 10 bestu fallhlífastökkvurum í heimi og er atvinnumaður í greininni. Hann segist ætla að halda áfram að stökkva þrátt fyrir þessa óheppni. Engu að síður viðurkennir hann að hann gæti átt í erfiðleikum með næsta stökk.

Hægt er að sjá myndband af atvikinu hér.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×