Innlent

Kosningalykt af samgönguáætlun

Eitthundrað og fimm milljörðum verður varið til vegamála á næstu fjórum árum, þar af verður tæpum tólf milljörðum ráðstafað til tveggja jarðganga, Óshlíðarganga og Héðinsfjarðarganga. Til samanburðar var varið áttatíu milljörðum til vegamála á árunum 2003 til 2006.

Meðal verkefna sem ráðist verður í á næstu fjórum árum samkvæmt samgönguráætlun sem kynnt var í dag, er bygging samgöngumiðstöðvar í Reykjavík og lenging flugbrauta á Akureyrarflugvelli og Egilsstaðaflugvelli. Ljúka á jarðgöngum milli Bolungarvíkur og Hnífsdals og Héðinsfjarðargöngum. Fjármagna má nokkur viðamikil verkefni með sérstakri fjáröflun eins og einkaframkvæmd, þar má nefna samgöngumiðstöð í Reykjavík, átak til að breikka og endurbæta aðalvegi út frá Reykjavík til austurs og norðurs og byggingu og rekstur Bakkafjöruferju.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar og Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna gagnrýna að áætlunin sé lögð fram þremur mánuðum fyrir kosningar og segja kosningalykt af öllum saman. Formaður Samfylkingarinnar bendir á að ríkisstjórnin hafi frestað mikilvægum samgöngubótum til að slá á þenslu vegna stóriðjuframkvæmda. Þar vilji ríkisstjórnin halda áfram á sömu braut og því engin ástæða til að ætla annað en að nauðsynlegum vegaframkvæmdum verði áfram frestað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×